Eldgosamengun er þríþætt og er þar um að ræða SO2 (brennisteinsdíoxíð) mengun, SO4 (súlfat) mengun og brunamengun frá gróðri. SO2 gas berst frá eldgosinu en í andrúmsloftinu umbreytist það í SO4 sem klumpast saman í agnir og sem koma fram sem PM2.5 og PM1 á svifryksmælum. Þessi umbreyting getur tekið nokkrar klukkustundir upp í daga að gerast (fer eftir veðri) og því kemur oft fyrir að stundum mælist SO2 en ekkert súlfat og öfugt.
Gosmóða (eða blámóða eins og hún er stundum kölluð) birtist þegar SO2 gas umbreytist í SO4 agnir sem skapa bláleitt mistur. Þar sem um er að ræða smáar agnir mælist hún því sem svifryk, eða PM2.5 og PM1. PM stendur fyrir particle matter og talan aftan við það vísar í stærð agnanna í míkrómetrum, eða µm. Þannig þýðir mælingin PM2.5 allar agnir undir 2,5 µm í þvermál. Algengustu PM mælingarnar eru PM10, PM2.5 og PM1. Þar sem PM10 mæling mælir allar agnir undir 10 µm eru PM2.5 og PM1 agnir taldar með í PM10 mæligildinu og PM1 er talið með í PM2.5 mæligildinu. Ef hlutfall PM2.5 og PM1 er hátt miðað við PM10 mælinguna (ef t.d. PM2.5 er sirka helmingur af PM10) bendir það því til þess að um gosmóðu sé að ræða.
Ekki allir mælar mæla það sama og gætu því sýnt mismunandi liti. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig er best að miða við þá nálægustu mælingu sem er “verst” hverju sinni. Ef til dæmis SO2 mælir sýnir grænt en PM2.5 mælir við hliðina á honum sýnir rautt bendir það til þess að mestallt SO2 hafi umbreyst í SO4 og er því ekki að mælast lengur að ráði. Bæði þessi efni hafa þó ertandi áhrif og ef annað efnanna mælist hátt ráðleggjum við fólki því að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstikerfum og takmarka áreynslu. Þetta á sérstaklega við um viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og þá sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Auk þess ættu börn ekki að sofa úti í vögnum.
Mælarnir eru þeim takmörkunum háðir að þeir mæla staðbundið á þröngu svæði. SO2 mengun getur borist í mjóum taumum sem þýðir að hún getur verið há á einu svæði en lág í nokkurra kílómetra fjarlægð. Auk þessa getur verið að erting komi fram einhverjum tíma eftir að mengun hættir að mælast sem uppsöfnuð áhrif. Gott er þá að kanna mælingar aftur í tímann en það er hægt að gera með því að ýta á > flipann efst í vinstra horninu á loftgæði.is, velja mælistöð og tímabil og þá er hægt að skoða mælisöguna bæði í töflu og línuriti. Í grunninn gildir það þó að ef fólk finnur fyrir ertingu í augum og/eða öndunarfærum og virkt eldgos er í gangi er það líklega vegna gosmengunar og þá ráðleggjum við fólki því að halda sig innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstikerfum og takmarka áreynslu. Þetta á sérstaklega við um viðkvæma hópa eins og börn, aldraða og þá sem eru með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Auk þess ættu börn ekki að sofa úti í vögnum.
Góðir loftgæðamælar eru flestir mjög vandaðir og nákvæmir og því dýrir í innkaupum, viðhaldi og rekstri. Þetta viðvarandi eldgosaástand á Reykjanesi er fordæmalaust síðan loftgæðamælingar hófust á Íslandi og síðan það byrjaði hefur mikil vinna verið sett í það að bæta mælingar, framsetningu gagna og upplýsingagjöf. Á Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu er búið að koma upp einu þéttasta neti SO2 mælistöðva í Evrópu og við erum stöðugt að vinna að því að koma upp fleiri mælum. Til eru ódýrari mælar frá ýmsum framleiðendum en reynslan sýnir að þeir eru mun minna nákvæmir og sýna stundum margfalt hærri gildi en raun ber vitni.
Það eru ekki til sérhæfðir sjálfvirkir gosmóðumælar og við þær mælingar er því helst notast við svifryksmælingar sem gefa mjög góða nálgun á styrk gosmóðu.
Staðsetning mæla ræðst helst af því að þeir eru settir upp þar sem líklegast er að loftgæði gætu farið yfir heilsuverndarmörk eða ef sérstaklega mikilvægt þykir að mæla á þeim stað. Því eru nokkrir mælar við þungar umferðaræðar á höfuðborgarsvæðinu og nálægt iðnaði, þar sem þeir eru settir upp sem hluti af umhverfisvöktun, eða við barnaskóla sökum þess að börn eru almennt viðkvæmari fyrir loftmengun. Í minni bæjarfélögum þar sem umferð og iðnaður er minni er mun ólíklegra að loftmengun fari yfir heilsuverndarmörk. Margir nýjir mælar hafa verið settir upp á Reykjanesi nýverið til að bregðast við aukinni eldgosavirkni þar.